Barnavernd

Að barnavernd er unnið samkvæmt lögum um vernd barna og ungmenna nr. 80/2002. Markmið barnaverndar er að tryggja börnum og ungmennum viðunandi uppeldisskilyrði. Það er gert með því að styrkja uppeldishlutverk fjölskyldunnar og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. Með börnum er átt við einstakling innan við 18 ára aldurs.

Hvernig eru barnaverndarmál unnin?

Þegar barnaverndarnefnd fær tilkynningu eða berast tilkynningu eða berast upplýsingar með öðrum hætti um að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroski geti verið hætta búin, skal hún taka afstöðu til þess án tafar og eigi síðar en innan sjö daga frá því henni barst tilkynning eða upplýsingar, hvort ástæða sé til að hefja könnun á málinu  sbr. 21. gr. barnaverndarlaga. Lögð er áhersla á að fá ítarlegar upplýsingar um tilefni tilkynninga í upphafi. Tilkynning þarf að vera trúverðug og vel rökstudd. Eftir viðtal við tilkynnanda  taka starfsmenn ákvörðun um hvort tilefni sé að hefja könnun máls. 

Foreldrar eru ávallt boðnir í viðtal og upplýstir um að tilkynning hafi borist og hvaða ákvörðun hafi verið tekin í framhaldinu.

Ef rökstuddur grunur leikur á að tilefni sé til frekari athugunar á aðstæðum barnsins er hafin könnun máls og skal hún að öllu jöfnu ekki vara lengur en í þrjá mánuði. Þess er gætt að könnunin sé ekki umfangsmeiri en þörf krefur, en markmið hennar er að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi og aðstæður barnsins. 

<Í samráði við foreldra eða forsjáraðila barns/unglings er aflað upplýsinga um barnið/unglinginn eftir ástæðum hjá umgbarnaeftirliti, læknum, leikskóla, skóla, ættingjum, barninu sjálfu o.s.frv. 

Framvinda málsins veltur á því hvað upplýsingaöflunin leiðir í ljós og ákvörðun tekin um framhald málsins.

Ef samstarf næst við foreldra er áframhaldandi vinnsla og stuðningúrræði unnin í fullu samráði við foreldra/forsjáraðila.

Ef tilkynnt er um mitt barn?

Tilkynning til barnaverndaryfirvalda er ekki kæra, heldur beiðni um aðstoð fyrir viðkomandi barn/fjölskyldu, sem tilkynnandi telur hjálparþurfi.

Hvernig ber mér að bregðast við ef fjölskylda mín er tilkynnt til barnaverndarnefndar?

Samkvæmt barnaverndarlögum er foreldrum eða þeim sem barnið dvelst hjá skylt að veita liðsinni sitt til að könnun málsins geti gengið greiðlega fyrir sig, enda skulu stafsmenn nefndarinnar sýna þeim er málið snertir alla nærgætni. Könnunin skal ekki vera umfangsmeiri en þörf krefur. Sjálfsagt er að spyrja starfsmenn um rétt foreldra og gang könnunar enda ber starfsmönnum að leiðbeina foreldrum og barni um rétt þeirra. Um heimildir og skyldur starfsmanna við könnun máls er fjallað í 22. gr. og VII. kafla barnaverndarlaga. Rétt er að hafa í huga að í langflestum barnaverndarmálum eru foreldrar og starfsmenn sammála um að leita þeirra leiða sem bestar eru fyrir barnið.

Úrræði fyrir fjölskyldur

Tilsjónarmaður aðstoðar foreldra við að sinna forsjár- og uppeldisskyldu sinni sem best.

Persónulegur ráðgjafiveitir barni ráðgjöf og leiðbeiningar í þeim tilgangi að styrkja það félagslega, siðferðilega og tilfinningalega, svo sem í sambandi við vinnu, menntun og tómstundir.

Stuðningsfjölskylda tekur á móti barni, eða barni og foreldri, til vistunar í nokkra daga í mánuði í því skyni m.a. að létta álagi af barni eða fjölskyldu þess og leiðbeina foreldrum og styðja þá í forsjárhlutverkinu.

Félagsleg ráðgjöf:

Á lífsleiðinni standa flestir frammi fyrir erfðleikum af einhverju tagi, smáum sem stórum.
Fagfólk sem starfar hjá Félagsþjónustu A-Hún veitir einstaklingum og fjölskyldum ráðgjöf og byggist þjónustan á að koma til móts við þarfir þeirra sem þangað leita. Einnig geta ráðgjafar veitt upplýsingar um möguleika á þjónustu utan Félagsþjónustunnar svo og vísað fólki áfram í þau úrræði sem henta hverjum og einum.

Markmið með félagslegri ráðgjöf er að hjálpa fólki til sjálfshjálpar þannig að sérhver einstaklingur geti sem best notið sín í samfélaginu. Ráðgjöfin felst í að veita upplýsingar og leiðbeiningar um félagsleg réttindamál annars vegar og stuðning vegna félagslegs og persónulegs vanda hins vegar. 

Félagsleg ráðgjöf tekur m.a. til ráðgjafar vegna:

 • atvinnuleysis
 • veikinda
 • húsnæðisleysis
 • fjárhagsvanda
 • fötlunar
 • öldrunar
 • málefna útlendinga
 • málefna barna og ungmenna
 • fjölskylduvanda
 • áfengis- og vímuefnavanda

Félagsleg ráðgjöf til einstaklinga og fjölskyldna skal ætíð beitt í eðlilegu samhengi við aðra aðstoð samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og í samvinnu við aðra þá aðila sem bjóða upp á slíka þjónustu, svo sem skóla og heilsugæslustöðvar eftir því sem við á. 

Starfsfólk Félagsþjónustunnar er bundið þagnarskyldu um málefni einstaklinga sem þangað leita. Undantekningu frá þagnarskyldu má einungis gera skv. lagaboði eða með samþykki aðila máls.

Helstu verkefni barnaverndar

Almenn félagsráðgjöf, barnavernd, forsjár- umgengis- og ættleiðingamál, fósturmál, vistun, sumardvalir, persónuleg ráðgjöf og tilsjón með börnum og forvarnarstarf.  

Hluti af starfi barnaverndar fer fram utan dagvinnutíma. Um er að ræða neyðarþjónustu sem ekki þolir bið, s.s. eftirlit með yfirheyrslum yfir ungmennum hjá lögreglu, neyðarástand sem skapast á heimilum er krefst tafarlausrar úrlausnar og ýmiss konar ráðgjöf í viðkvæmum málum hjá heilbrigðis- og lögregluyfirvöldum. 

Unnt er að ná sambandi við barnaverndarstarfsmenn gegnum Neyðarlínuna 112 eða neyðarsíma félagsþjónustunnar 8635013.

Í 16. gr. barnaverndarlaga segir: 

“Hverjum þeim sem hefur ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu er skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd. Annars er hverjum manni rétt að gera barnaverndarnefnd viðvart um hvert það tilvik sem telja má að hún eigi að láta sig varða.” 

Hafa má eftirtalin atriði í huga þegar meta skal þörf fyrir að tilkynna um aðstæður barna og unglinga:

 • Líkamlegt, andlegt eða kynferðislegt ofbeldi og misnotkun
 • Ung börn skilin eftir gæslulaus eða í umsjá annarra barna
 • Eldri börn eftir gæslulaus langtímum saman og þurfa að sjá um sig sjálf
 • Léleg skólaskylda, skólaskyldu ekki sinnt
 • Afbrot - árásargirni
 • Heilsugæslu- eða læknisaðstoð ekki sinnt þrátt fyrir þörf
 • Endurtekin slys og óhöpp sem hægt hefði verið að fyrirbyggja
 • Endurteknir áverkar sem barn á erfitt með að útskýra
 • Vannæring
 • Lélegur fatnaður og umhirða sem samræmist ekki aðstæðum
 • Óeðlileg útivist og endurtekin brot á útivistarreglum
 • Áfengis- og vímuefnaneysla foreldra
 • Almennt vanhæfni foreldra

Atriði sem varða unglinga:

 • Áfengis- og vímuefnaneysla
 • Léleg skólasókn
 • Endurtekin afbrot
 • Ofbeldishegðun
 • Þunglyndi, geðræn vandkvæði, sjálfsvígshugleiðingar

Nafnleynd tilkynnenda

Í barnaverndarlögunum er fjallað um nafnleynd tilkynnanda. Hinn almenni tilkynnandi, ættingjar eða aðrir nákomnir, geta óskað eftir nafnleynd gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd, en opinberir aðilar, s.s. starfsfólk skóla, leikskóla, spítala, heilsugæslu, starfsfólk annarra félagsmálastofnana eða barnaverndarnefnda o.s.frv. getur ekki tilkynnt undir nafnleynd.   

Barnahús

Könnun sem gerð var af Barnaverndarstofu um algengi kynferðisbrota leiddi í ljós að Barnaverndarnefndir fengu 110-130 tilkynningar á ári  vegna gruns um kynferðisbrots á árunum 1991-1996.  Nokkuð ljóst var að úrbóta var þörf í þessum málaflokki.  Þess voru dæmi að börn þurftu margendurtekið að segja sögu sína vegna barnaverndarkönnunar, lögreglurannsókna, læknisskoðunar og sálfræðimeðferða sem fóru fram á ólíkum stöðum.  Þetta hafi í för með sér mikið álag fyrir barnið.  Barnaverndarstofu var falið að finna leiðir til úrbóta og var Barnahús stofnað 1998 eftir Bandarískri fyrirmynd. 

Starfsemi  Barnahúsi hófst svo í nóvember 1998.  Í upphafi var ákveðið að Barnahús yrði 2ja ára tilraunaverkefni en að lokum þessum 2 árum var reynslutími Barnahúss framlengdur um eitt ár í viðbót. 

1. maí árið 1999 tóku gildi ný ákvæði laga um meðferð opinberra mál nr. 19/1991, sbr. Lög nr. 36/1999, sem meðal annars kveða á um breytingar á skýrslutöku barna sem grunur leikur á að hafi sætt kynferðisofbeldi.  Samkvæmt þessum breytingum er skýrslutakan nú í höndum dómara en ekki lögreglu eins og áður var.

Á mbl.is var ítarleg umfjöllun um kynferðisofbeldi gegn börnum í apríl og maí á þessu ári.  Þar kom fram að, að jafnaði er tíu börnum vísað til Barnahúss í hverjum mánuði. 

Hugmyndafræði Barnahús er í aðalatriðum tvíþætt:  Fyrsta er að koma í veg fyrir endurtekið áfall hjá barninu með síendurtekinni frásögn um atburðinn.  Annað er að upplýsa málið eins og unnt er. 

Meginmarkmið með starfssemi Barnahúss:

 • Að samhæfa eins og unnt er hlutverk barnaverndar- og félagsmálayfirvalda, saksóknara og lækna við rannsókn kynferðisbrota gegn börnum
 • Að efla samstarf ofangreindra stofnana og embætta til að gera vinnubrögð markvissari og skilvirkari
 • Að forða börnum sem sætt hafa kynferðisofbeldi frá því að þurfa endurupplifa erfiða lífsreynslu með ítrekuðum viðtölum við mismunandi viðmælendum á mörgum stofnunum
 • Að koma börnum til hjálpar með sérhæfðri greiningu og meðferð þegar þess gerist þörf
 • Að safna á einum stað þverfaglegri þekkingu mismunandi stofnana og sérfræðinga við rannsókn og meðferð mála og miðla henni til þeirra sem þurfa á henni að halda

Dómari sér um skýrslutöku sem yfirleitt fer fram í barnahúsi þar sem einnig eru viðstaddir fulltrúi ákæruvalds, verjandi sakbornings (og ef til vill sakborningur sjálfur), réttargæslumaður meints brotaþola, starfsmaður barnaverndarnefndar og rannsóknarlögreglumaður/menn.  Sérfræðingar Barnahúss veita börnum sem þangað er vísað allt að 14 meðferðaviðtöl.  Í fyrsta viðtali er þörf barnsins metin fyrir meðferð og kannað hvort að barnið hafið hegðunartruflanir eða önnur einkenni sem þarfnast meðferðar.  Samtals hefur málum 457 barna verið vísað til Barnahúss frá því að starfssemi hófst 1998.  Fjölmargir dómar hafa fallið í málum sem Barnahús hefur komið að, bæði í undirrétti og Hæstarétti.

Starfsmenn Barnahúss eru:  Vigdís Erlendsdóttir hjúkrunar- og sálfræðingur er forstöðumaður Barnahúss.  Auk hennar starfa Ragna Björg Guðbrandsdóttir MSW, Ólöf Ásta Farestveit uppeldis- og afbrotafræðingur og Þorbjörg Sveinsdóttir BA-sálfræði, ritari.

Stúlkur eru í miklum meirihluta þeirra barna sem koma í Barnahús og voru þær 73% árið 2000. (Ársskýrsla Barnaverndarstofu 2000)

Fósturfjölskyldur

Yfirumsjón með fósturmálum er í höndum Barnaverndarstofu.  Í því felst m.a.að útvega barnaverndarnefndum fósturforeldra og meta hæfni þeirra.  Fósturfjölskyldur skiptist niður í tímabundið og varanlegt fóstur.  Ef fólk vill gerast fósturfjölskylda sækir hún um til Barnaverndarstofu.   Alls hafa á þriðja hundrað börn dvalið hjá fósturforeldrum árlega og að jafnaði fara 20 börn í varanlegt fóstur ár hvert.  Fóstur tími getur varið allt frá mánuði upp í mörg ár. (Ársskýrsla Barnaverndarstofu 2000)

Langtíma meðferðarheimili

Barnaverndarstofa hefur umsjón og eftirlit með þeim átta langtímameðferðarheimilum sem starfrækt eru, þau eru einkarekin samkvæmt þjónustusamningi.  Heimilin eru öll staðsett út á landi og eru: Árbót og Berg, Laugaland, Háholt, Hvítárbakki, Torfastaðir, Jökuldalur og Geldingalækur.  Það síðar nefnda vistar börn undir 12 ára aldir en hin unglinga frá 13-18 ára.  Samtals eru þetta 48 rými og er dvölin allt að eitt ár og í sumum tilvikum lengur.

Nýting á meðferðarheimilum landsins hefur verið um 77% á ári en varð hæst 93% árið 2000.  Meðallengd dvalar árið 2000 var 414 dagar. (Ársskýrsla Barnaverndarstofu 2000)

Stuðlar

MMeðferðarheimili ríkisins Stuðlar tók til starfa árið 1994 en flutti í núverandi húsnæði að Fossaleyni í Grafarvogi árið 1996.  Starfsemi Stuðla skiptir í þrennt: á meðferðardeild fer fram sérhæfð greining og meðferð, boðið er upp á eftirmeðferð eftir útskrift af meðferðardeild og neyðarvistun er á lokaðri deild.  Á meðferðardeild er rými fyrir 8 unglinga á aldrinum 13-18 ára.  Lengd meðferðar er á bilinu 6-12 vikur.   Í meðferðinni er stuðst við reglubundna dagskrá og atferlismótandi þrepakerfi þar sem markmiðið er að styrkja sjálfsmynd unglingsins og gefa honum tækifæri til að læra að taka ábyrgð á líðan sinni og vanda.  Útivist, ferðalög, tómstundir og íþróttir eru mikilvægur hluti meðferðarinnar.  Það sem helst einkennir meðferð á Stuðlum er einstaklingsbundin nálgun og er lögð áheyrsla á að styrkja hvert barn í að vinna með sterkar og veikar hliðar í samskiptum við annað fólk og samfélagið.

Í eftirmeðferð eiga börnin kost á hópviðtölum, einstaklingsviðtölum sem og áframhaldandi foreldrastarfi vikulega í allt að sex mánuði eftir að vistun lýkur.  Markmið eftirmeðferðar er að þróa áfram þann árangur sem ávannst á meðferðardeild og er börnum veittur stuðningur til að fóta sig í samfélaginu.

Á lokaðri deild er hægt að vista fjóra unglinga í bráðavistun.  Barnaverndarnefndir og lögreglan geta einungis vistað barn á lokaðri deild.  Unglingarnir koma þar m.a. vegna afbrota, ofbeldis eða stjórnleysis vegna neyslu og er skaðleg og jafnvel lífshættuleg hegðun barns stöðvuð með því móti.  Hámarks vistunartími er 14 dagar.

Starfsmenn Stuðla eru um 27 talsins, þar á meðal forstöðumaður, þrír sálfræðingar, þrír deildarstjórar, 4 hópstjórar, unglingaráðgjafar, næturverðir og tveir kokkar.

Árið 2000 voru piltar 58% þeirra sem dvöldu á meðferðardeild á Stuðlum og 53% þeirra sem dvöldu á lokaðri deild.  Meðal dvalatími var 9,2 vikur og meðalaldur 15,2 ár. (Ársskýrsla Barnaverndarstofu 2000)

 

Additional information