Lærdómssamfélag í leik- og grunnskólum í Austur Húnavatnssýslu

Starfsmenn leik- og grunnskóla í Austur Húnavatnssýslu hafa verið að vinna að þróunarverkefni um lærdómssamfélag í vetur undir handleiðslu Önnu Kristínar Sigurðardóttur prófessors við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Starfsmenn fengu tækifæri til að dýpka þekkingu sína á áhugasviðum þvert á skóla og skólastig. Markmiðið með verkefninu í vetur var að skapa menningu lærdómssamfélags sem styður við samstarf, starfsþróun og gagnvirkt nám starfsmanna til að efla nám nemenda.

Haldin var lokahátíð á Húnavöllum þar sem þátttakendur sýndu afrakstur vetrarins en hóparnir lögðu meðal annars áherslu á mál og læsi, stærðfræði, upplýsingatækni, teymiskennslu og lýðheilsu og upplýsingamennt. Verkefnin sem voru kynnt bera vott um grósku í skólastarfi á svæðinu.

Í lok dags fengu starfsmenn að hlýða á fyrirlestur Ragnhildar Vigfúsdóttur markþjálfa sem nefnist „Hvort viltu vera gleðigjafi eða fýlupúki?“ Ragnhildur leitar í verkfærakistu jákvæðrar sálfræði þar sem talað er um styrkleika, jákvæðar tilfinningar og hamingjuaukandi aðgerðir í lífi og starfi.