Saman gegn ofbeldi á Norðurlandi vestra: Fréttir af málþingi

Mánudaginn 18. nóvember 2019 hélt samráðshópur um heimilisofbeldi á Norðurlandi vestra málþing um bætta þjónustu og samræmt verklag í heimilisofbeldismálum. Samráðshópur um heimilisofbeldi á Norðurlandi vestra tók til starfa í desember 2018. Frá þeim tíma hafa félagsþjónustur, barnavernd, lögregluembættið og heilbrigðisstarfsfólk svæðisins unnið að bættu verklagi í heimilisofbeldismálum. Nú hafa félagsþjónustur sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra skrifað undir samstarfssamning við Lögreglustjórann á Norðurlandi vestra um verklagið sem miðar að því að bæta þjónustu við þolendur og gerendur heimilisofbeldis.

Boðið var til málþings þar sem annars vegar samkomulagið og verklagið var kynnt, og hins vegar var sagt frá niðurstöðum tveggja rannsókna um úrræði og þjónustu fyrir þolendur heimilisofbeldis. Þá var einnig til kynningar þjónusta Bjarmahlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi. 

Málþingið var vel sótt, en tæplega 80 manns sóttu þingið sem haldið var í Félagsheimilinu á Blönduósi. Vilko, Félagsheimilið á Blönduósi og Kaupfélag Húnaþings vestra buðu upp á kaffiveitingar.