- Félags- og skólaþjónusta A-Hún
- Helstu hlutverk
- Hafa samband
Í dag , 1. júlí 2025, taka í gildi ný lög um lengingu fæðingarorlofs fyrir foreldra með fjölbura og vegna veikinda á meðgöngu. Samkvæmt lögunum eiga foreldrar rétt á lengingu fæðingarorlofs eða greiðslu fæðingarstyrks í sex mánuði fyrir hvert barn sem fæðist umfram eitt. Eignist fólk tvíbura lengist orlofið um hálft ár og um tólf mánuði í tilfelli þríbura. Með breytingunum tvöfaldast því tímabilið sem foreldrar eiga sameiginlegan rétt vegna fjölbura og er foreldrum frjálst að ráðstafa þeim mánuðum að vild.
Lögin ná líka til foreldra sem frumættleiða eða taka fleiri börn en eitt í varanlegt fóstur á sama tíma. Þeir foreldrar eiga sameiginlegan rétt á lengingu fæðingarorlofs eða greiðslu fæðingarstyrks í sex mánuði fyrir hvert barn umfram eitt.
Nýmæli samkvæmt lögunum er að einnig er heimilt að lengja fæðingarorlof um allt að tvo mánuði ef upp hafa komið alvarleg veikindi tengt meðgöngu sem haldið hafa áfram eftir fæðingu og gert foreldri ófært um að annast barn sitt í fæðingarorlofinu.