Tillögur starfshóps um endurbætur á þjónustu talmeinafræðinga við börn

Starfshópur sem skipaður var af heilbrigðisráðherra árið 2023 um stöðu talmeinaþjónustu hefur skilað ráðherra skýrslu með tillögum sínum og greinargerð. Hópurinn leggur til að talmeinaþjónusta við börn verði veitt á þremur stigum í samræmi við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Miðað skuli að því að tryggja snemmtækan stuðning, einfaldara þjónustukerfi og að þjónustan fari sem mest fram í nærumhverfi barna. Í aðalatriðum er lagt til að tryggð verði þjónusta talmeinafræðinga í heilsugæslu sem sinni börnum á aldrinum 0-2 ára, m.a. í kjölfar tilvísana frá ung- og smábarnavernd. Skólaþjónusta sveitarfélaga sinni áfram grunnþjónustu við börn á leik- og grunnskólaaldri, þar sem þjálfun, ráðgjöf og fræðsla til foreldra og starfsfólks verði lykilatriði.

Dugi grunnþjónusta ekki til, eigi sérfræðiþjónusta að taka við og skal sérstök áhersla lögð á að þjónustan sé veitt af viðeigandi sérfræðingum í nærumhverfi barnsins, óháð því hver beri ábyrgð á að veita þjónustuna. Þetta stuðlar að betra aðgengi að þjónustu og sem minnstri röskun í lífi barna og foreldra þeirra.

Þá er lagt er til að fjarþjónusta verði efld og komið verði á fót á miðlægum biðlista eftir þjónustu sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga til að bæta yfirsýn, koma á forgangsröðun og auka gagnsæi varðandi þjónustu og veitingu hennar.

Lesa má frétt á vef Heilbrigðisráðuneytisins hér.